Bækurnar

Íslendingasögurnar eru eldgamlar sögur sem varðveittar eru í lúnum, slitnum skinnbókum. Samt sem áður eru þær einhver merkasta eign íslensku þjóðarinnar. Þær fjalla nefnilega um lífið á Íslandi fyrir meira en þúsund árum, þegar norrænir víkingar voru nýbúnir að finna landið okkar og setjast hér að. Það er ekki síður merkilegt að sögurnar voru skrifaðar á íslensku um 300 árum síðar. Þá voru mikil átök í landinu og blóðugir bardagar, eins og á víkingaöld. Þrátt fyrir það fundu einhverjir óþekktir rithöfundar næði til að skrifa og búa til bækur – og það sem er enn merkilegra, bækurnar voru á íslensku þótt flestir skrifuðu á latínu í löndunum í kringum okkur.