Handritin

Núna hrósum við happi yfir því að höfundar Íslendingasagnanna þurftu að nota skinn í bækurnar. Skinn varðveitist nefnilega mun betur en pappír. Samt sem áður hefur aðeins lítill hluti handrita frá miðöldum varðveist. Mörg voru geymd í vætu og raka og eyðilögðust þess vegna, önnur voru nýtt í skó þegar hart var í ári, stundum er meira að segja sagt að Íslendingar hafi borðað handrit þegar hungursneið ríkti í landinu. Handritin sem varðveittust eru því afar þýðingarmikil og einhver dýrmætasta eign íslensku þjóðarinnar. Þau eru varðveitt hjá Árnastofnun en hægt er að skoða úrval þeirra í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Við fyrstu sýn eru handritin ef til vill drungaleg, skinnið er víða orðið dökkt og skriftin er afar smá og þétt. Þegar betur er að gáð má sjá að handritin eru fallega skreytt, upphafsstafir litskrúðugir og talsvert er um myndir. Myndirnar gefa mikilsverðar upplýsingar um klæðnað og vopn á þessum tíma, ekki síður en myndlist. Hægt er að skoða gömul handrit og fræðast um gerð þeirra á þessum vef: http://handritinheima.is/