Íslendingasagnastíll

Gömlu handritin sýna að strax á miðöldum bjuggu menn til bækur með mörgum Íslendingasögum. Við getum því sagt að allt frá upphafi hafi menn litið á Íslendingasögurnar sem sérstaka bókmenntagrein. Það þýðir að sögurnar eiga margt sameiginlegt sem bókmenntaverk. Í stórum dráttum er efni þeirra svipað – þær gerast á Íslandi á víkingaöld og fjalla um fyrstu kynslóðirnar í landinu. Það er hins vegar ekki það eina sem sameinar þær, eitt mikilvægasta sameiginlega einkennið er stíllinn. Með hugtakinu stíll er átt við hvernig sögurnar eru sagðar.

 

Stíllinn er svo sérstakur að hugtakið Íslendingasagnastíll er þekkt víða um heim. Íslendingasagnastíllinn einkennist af stuttum setningum og frásögnin er þess vegna hröð. Frásagnarhátturinn er hlutlaus sem þýðir að höfundar sagnanna taka ekki áberandi afstöðu og þeir lýsa atburðum fremur en að útskýra hvað er að gerast. Höfundarnir horfa til dæmis alltaf á persónurnar utan frá og láta sem þeir viti ekki hvað þær hugsa eða hvernig þeim líður.

Hægt er að líkja Íslendingasögunum við kvikmyndir því sá sem horfir á bíómynd þarf sjálfur að draga ályktanir um persónurnar og líðan þeirra út frá því sem þær segja og gera, alveg eins og sá sem les Íslendingasögur þarf að gera. Höfundar Íslendingasagnanna nota líka sviðsetningar og breytt sjónarhorn eins og kvikmyndagerðarmenn. Þannig auka þeir hraðann í frásögninni með því að skipta oft um sjónarhorn eða staðsetningu þegar miklir atburðir eiga sér stað, svo sem bardagar. Þrátt fyrir hlutleysi höfundanna nota þeir ýmsar brellur til að plata lesandann til að taka afstöðu. Þeir láta til dæmis aukapersónur tjá sig um aðalpersónurnar, svo nota þeir alls konar spádóma og drauma koma upp um fólk og jafnvel kjaftasögur.