Slúður

Höfundar Íslendingasagnanna segja ekki skoðun sína á persónunum en stundum gefa þeir upplýsingar um hvort þær eru góðar eða slæmar, vinsælar eða óvinsælar. Þeir láta til dæmis flökkufólk bera slúður milli manna eða kjafta frá því sem sagt er á öðrum bæjum. Í mörgum sögum ganga flökkukonur milli bæja og bera sögur á milli sem leiða síðan til átaka og jafnvel blóðugra bardaga. Flökkufólk bjó í öllum landshlutum fyrr á öldum. Þetta var fátækt fólk sem átti hvergi samastað en flakkaði milli bæja og sníkti matarbita eða húsaskjól. Stundum borgaði það fyrir sig með því að segja góða sögu eða fréttir af nágrönnunum.