Fjörverkefni

1. Þú ert íþróttafréttamaður og lýsir hólmgöngum Egils í beinni útsendingu. Þú getur gert þetta eingöngu munnlega eða tekið upp hljóðskrá og geymt.

2. Þú ert bókaútgefandi og ætlar að gefa út kvæði Egils Skalla-Grímssonar. Búðu til auglýsingu fyrir bókina. Hvað á bókin að heita?

3. Þú ert fréttamaður hjá Víkingaútvarpinu og færð það verkefni að greina frá bardaga strákanna tveggja sem sagt er frá í 17. kafla. Þetta er aðalfrétt kvöldfréttatímans svo þú mátt taka góðan tíma í að lesa fréttina og taka viðtal við einhvern sem varð vitni að atburðunum eða tengist þeim á annan hátt.

4. Víkingasjónvarpið er með vikulega þætti sem heita „Svona er maðurinn“. Þá situr einn maður fyrir svörum en annar spyr hann um ævi hans, áhugamál og fleira sem honum dettur í hug. Þið skulið vinna tvö og tvö saman. Annað er spyrjandinn og hitt er Egill eða önnur persóna úr bókinni. Þið getið tekið þáttinn upp eða leikið hann í beinni útsendingu í skólastofunni.

5. Disney fyrirtækið ætlar að framleiða Eglu-leikföng. Þið eigið að hanna dúkkur, bæði karla og konur, sem höfða eiga til 6-8 ára barna. Hannið líka fylgihluti eins og föt, verkfæri og vopn. Fylgihlutina þarf að teikna sérstaklega því þeir verða seldir sér. Í þessu verkefni geta margir skipt með sér verkum.

6. Disney ætlar líka að gera teiknimynd upp úr Eglu. Áður en hægt er að byrja að teikna þarf að velja hvaða persónur verða í myndinni og lýsa hverri þeirra stuttlega í orðum. Fyrirtækið biður ykkur um að gera þetta.

7. Egill bjó í Borgarfirði og þar eru menn mjög stoltir af þessari söguhetju. Nú ætla íbúar Borgarness að halda Egilshátíð sem þið eigið að skipuleggja. Búið til dagskrá fyrir hátíðina. Hún þarf auðvitað að tengjast Eglu.

8. Í Borgarnesi er Landnámssetur, sögusýning þar sem Egla er í aðalhlutverki. Landnámssetrið langar að selja minjagripi tengda sögunni og biður ykkur að koma með hugmyndir að slíkum gripum.