Umræður

1. Haldið þið að Egill og Grímur hafi hegðað sér eins og átti að gera í knattleik? Hvað gerist ef engar reglur eru í leikjum eins og knattleik? Hvað myndi gerast ef engar sameiginlegar reglur væru í gildi í Íslandsmótinu í handbolta eða fótbolta núna?

2. Hvað finnst ykkur um aðgerðir Egils þegar hann reiðist? Munið þið eftir einhverjum öðrum söguhetjum sem hegða sér svona sem börn? Hver er munurinn á Agli og öðrum óþekkum sögupersónum eins og til dæmis Emil í Kattholti eða Bart Simpson?

3. Egill er sex ára þegar hann drepur Grím en Þórður vinur hans er orðinn unglingur. Hann er líklega 14 ára. Veltið því fyrir ykkur hvernig Þórður bregst við þegar Egill leitar til hans. Finnst ykkur hann bera einhverja ábyrgð á því að Egill drepur Grím?

4. Skoðið myndirnar á bls. 16-17. Hvers vegna sýnir listamaðurinn ekki ofbeldið eða blóðið? Hvaða tilfinningar vekja myndirnar miðað við textann? Veltið nú fyrir ykkur myndum af ofbeldi í sjónvarpinu út frá þessum myndum, hvort sem það er í teiknimyndum eða í fréttunum. Þarf alltaf að sýna allt nákvæmlega? Hvar á að draga mörkin, hvenær er of mikið sýnt?

5. Hvað finnst ykkur um viðbrögð foreldra Egils? Hvernig myndu foreldrar ykkar bregðast við ef þið ynnuð svona voðaverk? Myndu kannski einhverjir aðrir skipta sér af núna? Hverjir myndu grípa inn í? Hvað yrði gert ef strákur í 1. bekk myndi ráðast með öxi á strák í 6. bekk? Hvað yrði gert við strákinn úr 9. bekk sem lánaði honum öxina?

6. Á þessum tíma báru börn ekki ábyrgð á gjörðum sínum eins og þessi saga sýnir. Þau tilheyrðu ekki heimi hefndarinnar, þar voru bara fullorðnir. Fullorðnir karlmenn áttu að hefna sín ef einhver gerði eitthvað á þeirra hlut en það mátti enginn hefna sín á börnum eða fyrir verknað barna. Þess vegna er Egill ekki í hættu þótt hann hafi drepið mann. Finnst ykkur þetta sanngjarnt? Finnst ykkur að börn eigi að bera ábyrgð á því sem þau gera? Hvað eiga þau að vera gömul þegar þau fara að bera ábyrgð á því sem þau gera? Hvernig er það núna? Berið þið ábyrgð á öllum sem þið gerið?Get Cloud PHP Hosting on CatN