Daglegt líf

Víkingarnir voru auðvitað ekki alltaf í siglingum og átökum. Flestir þeirra áttu fjölskyldu og heimili. Fólkið sem bjó á Íslandi á víkingaöld stundaði búskap, ræktaði korn og var með kindur, geitur, kýr, svín, hesta og hænur. Það var mikil vinna að halda heimili á þessum tíma þegar ekkert rafmagn var og þar af leiðandi engin nútíma heimilistæki. Það var heldur ekkert rennandi vatn svo byrja þurfti hvern dag á að sækja vatn til drykkjar og matseldar. Hvert heimili þurfti að framleiða nægan mat fyrir heimafólkið – og föt því ekki var hægt að skreppa út í búð að kaupa það sem vantaði. Allan mat þurfti að vinna frá grunni, slátra skepnum, verka kjötið, mjólka kýr, kindur og geitur og búa til smjör, osta og skyr, þreskja og mala kornið, tína ber, fjallagrös og söl og veiða fisk og fugl. Fötin voru líka gerð „beint af kindinni“. Band var spunnið úr ullinni og úr því var ofið efni, svo kallað vaðmál, sem fötin voru saumuð úr – auðvitað í höndunum. Allir á heimilinu þurftu að taka þátt í þessum störfum og börn fengu hlutverk við vinnuna þegar þau voru um 7 ára gömul. Mesta vinnan inni á heimilunum hvíldi þó á herðum kvenna. Þær sáu um matinn og bjuggu til klæðnaðinn. Þær hugsuðu líka um alla sem gátu ekki bjargað sér sjálfir; börn, sjúklinga, fatlað fólk og gamalmenni enda voru ekki til leikskólar, skólar, sjúkrahús eða elliheimili. Þótt karlarnir sæu um erfiðisvinnuna utan dyra var margt af því sem konurnar báru ábyrgð á óttalegt púl. Þær þurftu til dæmis að ganga stanslaust fram og til baka við vefstaðinn þegar þær ófu vaðmál, samanlagt marga marga kílómetra fyrir hvern dúk. Það gat líka verið erfitt að bera óhrein föt út í læk að þvo í hvaða veðri sem var – og enn þyngra var að bera þau blaut til baka.