Kvennasaga

Margar merkilegar konur koma við sögu í Laxdælu. Frægastar þeirra eru landnámskonan Unnur djúpúðga, ambáttin og kóngsdóttirin Melkorka Mýrkjartansdóttir og Guðrún Ósvífursdóttir sem kalla má aðalpersónu sögunnar. Konur í Laxdælu eru sterkar og skapmiklar og láta ekkert buga sig. Þær bera ekki vopn en eru ákaflega hefnigjarnar og krefjast blóðhefndar þótt frændur eigi í hlut. Grimmastar að þessu leyti eru Guðrún og Þorgerður Egilsdóttir móðir Kjartans. Hún er dóttir Egils Skalla-Grímssonar. Ein kona í Laxdælu beitir þó vopni til að hefna sín, hún er kölluð Bróka-Auður.

Í Laxdælu er líka sagt frá kvennastörfum, svo sem vefnaði, og klæðnaður kvenna kemur mikið við sögu. Hún veitir því áhugaverða innsýn í líf (ríkra) kvenna á miðöldum. Vegna þessa hefur því verið haldið fram að kona hafi skrifað söguna. Um það er þó ekkert hægt að fullyrða.