Eru þetta sannar sögur?


Íslendingasögurnar eru raunsæjar sem merkir að höfundar þeirra reyna að líkja eftir raunveruleikanum. Þeir fjalla líka oft um fólk sem vitað er að var uppi á víkingaöld. Þess vegna héldu menn lengi vel að sögurnar væru alveg sannar. Margt í þeim er þó augljóslega skáldskapur, til dæmis birtast þar ævintýralegar persónur eins og  galdramenn og draugar. Best er að orða það svo að Íslendingasögurnar séu sambland skáldskapar og raunverulegra atburða.

En hvernig verður svona saga þá til? Við getum ímyndað okkur að á víkingaöld hafi orðið bardagi sem allir í sveitinni fylgdust með. Fólk sagði sögur af þessum bardaga heima hjá sér og þegar börnin sem hlustuðu á sögurnar urðu fullorðin sögðu þau sínum börnum frá. Seinna sögðu þau svo sínum börnum söguna og svo koll af kolli. Í hvert sinn sem sagan var sögð breyttist hún svolítið en mikilvægustu þættirnir héldust, til dæmis nöfn mannanna sem börðust og úrslitin í bardaganum. Þannig gekk sagan milli manna eins og ævintýri þar til einhver skrifaði hana niður.