Fornleifar

Þótt margt merkilegt standi í gömlum bókum koma bestu upplýsingarnar um víkingatímann úr jörðinni. Ýmislegt sem tengist víkingaöldinni hefur fundist við fornleifauppgröft. Þetta Þórslíkneski úr bronsi fannst við Eyjafjörð á 19. öld. Það sýnir þrumuguðinn Þór með hamarinn sinn Mjölni.  Margir spjótsoddar hafa fundist og fleira sem tengist vopnum. Flestar fornminjarnar eru varðveittar í Þjóðminjasafninu.

Á söguslóðum Njálu fannst þessi útskorni hringur úr beini. Talið er að víkingar hafi notað svona hring til að verja á sér fingurinn þegar þeir skutu af boga. Á hringnum er mynd af hirti en bróðir Gunnars á Hlíðarenda hét einmitt Hjörtur. Þess vegna telja margir að hann hafi átt þennan hring.

 

Föt varðveitast ekki eins vel í jörðu og munir úr málmi, beini eða steini. Eitthvað hefur þó fundist af fataleifum. Við höfum samt nokkuð góða hugmynd um hvernig fötum fólk klæddist á víkingaöld. Við getum til dæmis stuðst við lýsingar og myndskreytingar í fornum sögum.