Lögberg

Lögberg var miðpunktur Alþingis og öllum opið. Þar voru fluttar fréttir og skýrt frá ákvörðunum Lögréttu, stefnur voru birtar – sem merkir að menn voru kærðir fyrir lögbrot, og tímatal var rétt (það þýðir að skýrt var frá því hvaða dagur var og ár sem var mikilvægt að gera þegar enginn átti úr eða dagatal).  Á Lögbergi gátu allir tekið til máls en einn maður var skyldugur að tala á Lögbergi. Það var lögsögumaðurinn sem varð að þylja þar upp lögin sem hann átti að kunna utanbókar. Ekki er vitað hvar nákvæmlega Lögberg var á Þingvöllum, kannski var það inni í Almannagjá, kannski ofan á flötu bergi fyrir ofan gjána.