Stéttaskipting

Á víkingaöld var skýr stéttaskipting á Íslandi. Bændur sem áttu land þóttu merkilegastir og þeir stjórnuðu í raun samfélaginu. Eftir því sem bændurnir voru ríkari, því fleiri vinnumenn og þræla gátu þeir haft á bænum sínum. Allra ríkustu og voldugustu bændahöfðingjarnir kölluðust goðar. Fátækir bændur þurftu að leigja land af ríku bændunum og kölluðust leiguliðar. Staða þeirra var mun veikari og þeir nutu minni virðingar. Vinnufólkið naut enn minni virðingar en var þó frjálst. Lægst sett voru þrælar og ambáttir sem voru eign bændanna og höfðu ekki frelsi. Í Íslendingasögunum kemur skýrt fram hversu mikill munur var á stöðu fólks. Það sést best á því að hefndarskyldan hvíldi þungt á bændum og fjölskyldum þeirra en það var alls ekki víst að einhver myndi hefna vinnumanns (húskarls), hvað þá þræls.