Goðar

Valdamestu bændurnir á Íslandi kölluðust goðar og yfirráðasvæði þeirra goðorð. Hægt var að eignast goðorð með því að kaupa það, erfa það eða þiggja það að gjöf. Allir bændur urðu að fylgja einhverjum goða og þeir gátu valið hann sjálfir og skipt um goða ef þeir voru ósáttir við hann. Goðarnir urðu að vernda bændur sína, gæta réttar þeirra og varðveita friðinn í héraðinu. Goðarnir voru voldugustu og oftast ríkustu mennirnir í hverri sveit og í raun skiptu þeir landinu á milli sín. Þegar Alþingi var stofnað(930)  var landinu skipt í 36 goðorð eða yfirráðasvæði. 35 árum síðar var landinu skipt í fjórðunga og þá var goðunum fjölgað um þrjá eða í 39. Upp frá því voru 9 goðar í öllum fjórðungum nema Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur. Þar voru 12 goðar.

Margir frægir goðar koma við sögu í Íslendingasögunum og sumir tengja saman margar sögur. Einn þeirra er Snorri goði, vinur Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu. Hann birtist líka í Njálu og Gísla sögu Súrssonar og gegnir lykilhlutverki í Eyrbyggju.