Þrælar

Þrælahald var leyfilegt og algengt á víkingaöld. Það merkir að ríkt fólk gat keypt sér annað fólk og látið það vinna fyrir sig. Bæði konur og karlar voru í þrældómi, konurnar kölluðust þá ambáttir en karlarnir þrælar. Þrælar og ambáttir voru ekki frjáls, þau máttu ekki yfirgefa eigendur sína og þurftu að sætta sig við ákvarðanir þeirra. Eigendurnir gátu selt þau eða jafnvel drepið ef þeim sýndist. Þrælar og ambáttir gátu þó öðlast frelsi með því að kaupa það eða þiggja að gjöf. Þá kölluðust þau leysingjar. Þrælar og ambáttir unnu oft mjög erfiða vinnu og fengu engin laun fyrir. Þau höfðu lítil réttindi og ef þau eignuðust börn urðu börnin sjálfkrafa þrælar við fæðingu. Sumir húsbændur eignuðust börn með ambátt sinni og formlega séð áttu ambáttarbörn að verða þrælar. Það var þó ekki alltaf þannig eins og sagan af Ólafi pá, syni ambáttarinnar Melkorku í Laxdælu, sýnir. Hann varð mikill höfðingi og fékk jafnmikinn arf eftir föður sinn og bræður hans. Melkorka er frægasta ambáttin í Íslendingasögunum en hún reyndist vera konungsdóttir frá Írlandi. Hún var fimmtán ára þegar henni var rænt.