Börn á víkingaöld

Víkingaöldin var eins og nútíminn að því leyti að fólk reyndi að koma sér saman um hvenær krakkar gátu talist fullorðnir. Gömul lög sýna að víkingarnir miðuðu við 16 ára aldur, sem sagt tveimur árum fyrr en núna. Það var þó algengt að börn þyrftu að hegða sér eins og fullorðnir miklu fyrr. Börn gátu talist fullorðin 12 ára gömul, til dæmis hvíldi hefndarskyldan á strákum sem voru stórir og sterkir þótt þeir væru bara 12 ára. Ef faðir þeirra var drepinn þá urðu þeir að hefna hans. Stelpur á þessum aldri máttu ekki bera vopn en þær þurftu hins vegar að giftast. Algengur giftingaraldur stúlkna var 14-15 ára. Þær réðu því ekki sjálfar hverjum þær giftust heldur feður þeirra eða jafnvel bræður. Besta dæmið er í Laxdælu þar sem Guðrún Ósvífursdóttir er 15 ára þegar hún giftist í fyrsta sinn og 17 ára þegar hún giftist í annað sinn. Síðar hvetur Guðrún syni sína til að hefna föður síns þótt þeir séu aðeins 12 og 16 ára gamlir.