Hvað lærðu börn?

Víkingabörn gengu ekki í skóla og þau lærðu ekki að lesa, það voru hvorki til skólar né bækur á þessum tíma. Hins vegar lærðu börnin snemma það sem kæmi sér vel þegar þau yrðu fullorðin. Strákarnir lærðu að beita vopnum, veiða dýr og sigla skipum. Sumir lærðu líka að yrkja vísur eða rista rúnir. Stelpurnar lærðu að elda mat, hugsa um börn, sauma föt og spinna úr ull. Flestir krakkar heyrðu sögur sem þeir lögðu á minnið, sögur um æsina, tröllasögur og draugasögur. Á Íslandi heyrðu börnin sögur frá gamla landinu, Noregi og þannig varðveittust minningar um forfeðurna og forna siði. Margar keltneskar ambáttir (frá Írlandi og Bretlandseyjum) voru látnar gæta barna og þá lærðu börnin keltneskar sögur og ævintýri. Víkingabörnin lærðu auk þess að hjálpa til við bústörfin; að hugsa um skepnurnar og rækta jörðina. Þau lærðu líka á umhverfið og náttúruna. Þau þurftu til dæmis að þekkja hvaða jurtir voru ætar, hvernig búast mætti við óveðri og hvaða dýr þyrfti að varast.


Í Egla elta tveir tíu ára drengir feður sína og til bardaga. Drengirnir stinga af og berjast sjálfir með þeim afleiðingum að þeir deyja báðir.

Af Eglu og fleiri sögum má sjá að víkingabörnin fylgdu foreldrum sínum til verka og lærðu af þeim, um leið og þau voru orðin um það bil sjö ára. Strákarnir fylgdu föður sínum á akurinn, að hugsa um skepnurnar – eða í bardaga. Stelpurnar voru inni með móður sinni og lærðu að búa til mat og föt hugsa um börn og taka á móti gestum.