Leikföng barna

Öll börn leika sér, hvort sem þau eiga mikið af dóti eða ekki. Við getum því verið viss um að börn á víkingaöld höfðu jafn gaman af leik og nútímabörn þótt leikföngin þeirra hafi verið svolítið öðruvísi en nú þekkjast. Fundist hafa leikföng úr tré, steinum og beini frá víkingaöld, til dæmis útskorin dýr. Leikir barnanna tóku mið af því sem þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór. Valmöguleikarnir voru ekki margir, strákarnir vissu að þeir yrðu bændur og gætu farið í víking. Stelpurnar vissu að þær yrðu húsfreyjur. Strákarnir léku sér því mest með trésverð og tréskildi, skylmdust og slógust og þóttust vera í herleiðangri. Stelpurnar léku sér með saumaðar brúður eða trébrúður og bökuðu drullukökur. Allir krakkar léku sér með hluti úr náttúrunni, til dæmis steina, bein og kuðunga. Í Eglu fær Egill Skalla-Grímsson kuðunga og fjaðrir að gjöf frá afa sínum þegar hann er þriggja ára gamall. Þetta eru leikföngin hans.