Íþróttir

Víkingarnir gerðu margt sér til skemmtunar. Íþróttir þeirra snerust mikið um líkamlega krafta enda þurftu víkingarnir að vera í góðu formi, hvort sem var til að sigla skipum, stunda bústörf eða fara í hernað. Víkingarnir stunduðu skíðahlaup, glímu, sund, knattleik, hestaat, skylmingar, spjótkast og skinndrátt sem var eins og reiptog nema togast var á um skinn. Stundum var notað blautt skinn og þá kallaðist leikurinn hráskinnaleikur. Víkingarnir töldu viðfangsefni sem reyndu á andlegan styrk líka til íþrótta, til dæmis hnefatafl, skák, kveðskap og rúnir.  Ýmsar íþróttagreinar sem hljóma eins og núna voru í raun allt öðru vísi. Til dæmis snerist keppni í sundi um kaffæringar. Markmiðið var að halda andstæðingnum eins lengi og maður gat í kafi (og helst án þess að hann drukknaði). Svona sundkeppni kemur fyrir í Laxdædu þar sem Kjartan Ólafsson keppir við Ólaf konung Tryggvason.


[p1]Laxdæla bls. 30