Knattleikur

Knattleikur fór fram á grasi eða ís og var vinsæll bæði hjá börnum og fullorðnum. Stundum stóð keppni í knattleik í marga daga og dró að sér fjölda manns, jafnt keppendur sem áhorfendur. Leikreglurnar eru ekki fyllilega þekktar en þó nægilega vel til að hægt sé að hugsa sér leikinn eins og sambland af hafnarbolta og hokkí. Skipt var í lið og notuð knatttré (trékylfur) og bolti. Boltann mátti taka með höndum og kasta eða slá með knatttrénu. Yfirleitt kepptu tveir í einu, einn úr hvoru liði, og var þá stillt saman keppendum sem voru álíka stórir og þungir.