Tungumál

Víkingarnir komu frá Norðurlöndunum og tungumálið sem þeir töluðu kallast norræna. Það mál var talað alls staðar þar sem víkingar réðu ríkjum, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, á yfirráðasvæðum víkinga á Bretlandseyjum, í Færeyjum, sums staðar á Grænlandi og auðvitað á Íslandi. Stundum er talað um danska tungu í gömlum sögum og er þá átt við norrænuna. Víkingarnir skildu hver annan vel þótt þeir byggju ekki í sama landinu. Það var ekki fyrr en eftir lok víkingaaldar að norrænan þróaðist í ólíkar áttir og mismunandi mállýskur urðu til sem síðar urðu að aðskildum tungumálum; íslensku, færeysku, norsku, sænsku og dönsku. Ekki eru til skriflegar heimildir frá víkingaöld en rúnaáletranir gefa mikilvægar vísbendingar um hvernig norrænan var. Hún var í raun afar lík nútíma-íslensku. Við vitum þó að framburðurinn var býsna ólíkur því sem við heyrum nú til dags á Íslandi. Víkinga-norrænan hafði miklu fleiri sérhljóða en nútíma-íslenskan og líka ýmis nefhljóð sem horfin eru úr málinu.