Siglingar víkinga

Víkingarnir bjuggu fyrst bara á Norðurlöndunum en svo fóru þeir að sigla lengra og lengra og setjast víðar að. Víkingarnir voru færustu siglingamenn Evrópu. Þeir voru flinkir að smíða skip og kunnu að rata um höfin. Það gerðu þeir með því að fylgjast með stjörnunum á himninum, til dæmis pólstjörnunni sem er alltaf í hánorðri. Þeir fylgdust líka með dýrunum. Flug fugla benti til þess að land væri í nánd og þeir vissu hvaða hvalategundir héldu sig nærri landi. Þeir virtu líka fyrir sér skýin því þeir vissu hvers konar skýjabólstrar myndast við fjallstinda. En það sem mestu máli skipti er að víkingarnir hönnuðu skip sem þoldu langa siglingu.