Greftrun víkinga

Víkingarnir voru ekki jarðsettir í kirkjugarði enda voru engir kirkjugarðar til á Íslandi fyrr en farið var að reisa kirkjur eftir árið 1000. Víkingarnir kvöddu samt dáið fólk á svipaðan hátt, það er með því að grafa það. Líkið var lagt í grunna gröf, 50-100 sm, og moldinni sem upp kom var mokað yfir það. Grafirnar eru kallaðar kuml. Stundum voru dánir menn heygðir en það merkir lagðir í haug (eða öllu heldur að gerður var haugur yfir þá). Þeir ríkustu voru lagðir í bát sem gerður var haugur yfir. Þannig var ríki höfðinginn í Gaukstaðaskipinu heygður. Oft voru ýmsir munir lagðir í kumlið eða hauginn með hinum látna, til dæmis vopn karlmanna og skartgripir kvenna, en einnig skepnur, bæði hundar og hestar.