Söguöld

Íslendingasögurnar gerast á víkingaöld sem einnig er kölluð söguöld. Á þessum tíma voru menn ekki farnir að rita bækur heldur lagði fólk sögur sem það heyrði á minnið til þess að geta sagt öðrum frá. Oft er sagt að Íslendingasögurnar hafi varðveist í munnlegri geymd þar til þær voru skrifaðar. Munnleg geymd er hugtak sem merkir einmitt að sögurnar voru sagðar aftur og aftur, þær voru hreinlega geymdar í munni þjóðarinnar. Margt fólk tók þátt í að varðveita þessar gömlu sögur og auðvitað breyttust þær svolítið í hvert sinn sem þær voru sagðar. Stundum voru Íslendingasögurnar skemmtiatriði í veislum, stundum spennandi framhaldssögur yfir handavinnunni á kvöldin. Stundum sögðu ömmur þær til að svæfa barnabörnin sín.

Íslendingasögurnar voru ein vinsælasta afþreying þjóðarinnar á miðöldum. Er það nokkuð skrýtið að í samfélagi, þar sem ekki var til sjónvarp eða útvarp, hafi fólk sótt í að hlusta á spennandi sögur meðan það skemmti sér eða vann verkin sín? Það hlýtur líka að hafa verið mjög eftirsóknarverður hæfileiki að geta sagt sögur þannig að allir hlustuðu, hvort sem það voru börn eða fullorðnir.