Höfundar Íslendingasagnanna kunna ýmis ráð til að halda lesendunum spenntum. Þeir gefa til dæmis vísbendingar um hvað muni gerast síðar í sögunni. Yfirleitt birtast þessar vísbendingar þannig að einhvern dreymir merkilegan draum sem klókur maður er fenginn til að ráða. Þær geta líka falist í því að einhver sér fram í tímann þótt hann sé glaðvakandi. Þá birtast ýmis tákn eins og rennandi blóð og dauð dýr sem eiga að benda til skelfilegra atburða. Algengt er að svona forspá sé sett fram í vísu og stundum er hún á hálfgerðu dulmáli til þess að halda spennunni.
Í Laxdælu er gott dæmi um mikilvæga drauma sem rætast allir. Þegar Guðrún Ósvífursdóttir er ung stúlka dreymir hana fjóra drauma um verðmæta hluti sem henni finnst hún eiga. Illa fer fyrir hlutunum því hún ýmist hendir þeim, týnir eða þeir skemmast. Draumarnir eru ráðnir af vitrum manni sem segir að þeir tákni tilvonandi eiginmenn hennar og að hjónabönd hennar muni enda illa.