Velkomin á Íslendingasagnavefinn

Héðan siglum við á framandi slóðir. Leiðin liggur ellefu hundruð ár aftur í tímann, til víkingaaldar þegar byggð var ný hafin í landinu okkar. Við hittum vopnaða bændur sem berjast upp á líf og dauða en líka skapheitar konur og ráðagóða öldunga. Við skoðum samfélag þeirra, trúarbrögð og hugsunarhátt en líka hversdagslega hluti eins og föt, vopn og mat.

Leiðin liggur líka átta hundruð ár aftur í tímann, til Sturlungaaldar þegar óþekktir rithöfundar skrifuðu sögur um víkingana á landnámstímanum, sögur sem höfðu verið sagðar til skemmtunar í 300 ár. Við skoðum einkenni þessara sagna sem kallast einu nafni Íslendingasögur en líka samfélagið sem þær urðu til í.

Flestar Íslendingasögur eru nefndar eftir aðalpersónunum, svo sem Brennu-Njáls saga og Egils saga Skallagrímssonar, en sumar eftir svæðinu sem þær gerast á eins og Laxdæla saga. Það er til marks um hversu vænt þjóðinni hefur þótt um þessar sögur að þær hafa allar fengið gælunöfn. Við kíkjum í þessar þekktu sögur sem við köllum Njálu, Eglu og Laxdælu,  en þær eru allar til barnaútgáfu.