Velkomin á Egluvefinn

Velkomin á Egluvefinn

Egils saga Skalla-Grímssonar eða Egla er ein elsta og jafnframt blóðugasta Íslendingasagan. Hún er líka mesta víkingasagan og gerist því að stórum hluta í útlöndum. Sagan hefst í Noregi um það leyti sem byggð hófst á Íslandi en henni lýkur á Íslandi um hundrað og fimmtíu árum síðar. Aðalpersóna sögunnar er víkingurinn og skáldið Egill Skalla-Grímsson. Hann er óvenjuleg söguhetja úr Íslendingasögunum enda áberandi ljótur, grimmur og göldróttur. Egill fer oft í víking, rænir fé, ræðst á fólk og brennir bæi eins og víkinga var siður.  Hann tekur þátt í ótal bardögum, bæði við herskara víkinga og yfirnáttúrulegar verur. Söguhetjur Eglu koma fyrir í fleiri sögum og sagt er frá landnámi föður hans í Landnámu. Sennilega hefur faðir hans verið til og líklega Egill líka. Hvort sá maður var göldróttur berserkur eins og lýst er í Eglu vitum við ekkert um. Við getum þó ályktað að fólki hafi þótt Egill forn í háttum þegar sagan var skrifuð um 1220 því Egla hefur á sér mikinn ævintýrablæ þar sem ásatrú, rúnaletur og alls kyns galdrar koma við sögu.