Heim 5 Bækurnar 5 Bókagerð á miðöldum

Bókagerð á miðöldum

Það var bæði seinlegt og dýrt að búa til bók á 13. og 14. öld. Það voru auðvitað engar tölvur til og ekki einu sinni pappír. Allan texta þurfti að handskrifa með heimatilbúnu bleki úr sortulyngi og penna sem var bara fjöður. Blaðsíðurnar voru úr kálfskinni og í langa og mikla bók eins og Njálu, Eglu og Laxdælu þurfti skinn af mörgum kálfum. Skinnið var dýrt og því þurfti að vanda skriftina, nýta allar blaðsíðurnar og nota alls konar skammstafanir. Oft voru margar sögur ritaðar í hverja bók til að spara pláss.

Bækur voru dýrar og Íslendingasögurnar voru ekki til á hverju heimili. Sá sem vildi eignast eintak af einhverri af sögunum þurfti að skrifa hana sjálfur upp eða ráða einhvern til að gera það. Þess vegna gefur fjöldi varðveittra handrita góðar vísbendingar um vinsældir þeirra. Varðveitt eru um 60 handrit eða handritabrot af Njálu en það eru fleiri handrit en af nokkurri annarri Íslendingasögu. Njála hefur því augljóslega verið mjög vinsæl og það hafa örugglega verið til nokkur hundruð eintök af henni á miðöldum. Það þykir auðvitað ekki mikið nú til dags þegar bækur eru prentaðar í hundruðum eða þúsundum eintaka. Barnagerð Njálu hefur til dæmis verið prentuð í 6.000 eintökum.