Þorgerður Egilsdóttir er ein af sterkustu og skaphörðustu konunum í Íslendingasögunum. Í Eglu er hún þó fyrst og fremst klók og ráðagóð. Hún kann lagið á skapstygga víkingnum föður sínum þegar enginn annar getur talað hann til. Þorgerður elst upp á Borg á Mýrum ásamt fimm systkinum en Þorgerður er elsta barn Ásgerðar og Egils Skalla-Grímssonar. Þorgerður giftist Ólafi pá Höskuldssyni og flytur úr Borgarfirði í Laxárdal í Dalasýslu. Þar reisa þau bæ sem þau kalla Hjarðarholt. Það má segja að Þorgerður flytji sig við það milli Íslendingasagna því nú er hún komin inn í miðja Laxdælu. Miklar ástir takast með Þorgerði og Ólafi og þau eignast nokkur börn. Þekktast þeirra er Kjartan Ólafsson. Þau ala einnig upp frænda Ólafs, jafnaldra Kjartans, sem heitir Bolli Þorleiksson. Þorgerði er annt um heiður fjölskyldunnar og fylgir gömlum hugmyndum um blóðhefnd. Það sést best þegar Bolli fóstursonur hennar drepur Kjartan. Þá skipar hún sonum sínum að hefna og fer með þeim að drepa Bolla.