Unnur djúpúðga var ein af landnámsmönnum Íslands. Hún nam land í Dalasýslu en Laxdæla gerist í sveitinni hennar og fjallar um afkomendur hennar. Í Laxdælu er Unnur mikill töffari, rík og sterk kona sem lætur smíða fyrir sig víkingaskip, fyllir það af fólki og fé og stjórnar leiðangri til Íslands. Unnur kemur fyrir í fleiri sögum og er þá oftast nefnd Auður djúpúðga. Líklegt er að Unnur hafi verið til í raun og veru en hún er eina konan sem nefnd er með fyrstu landnámsmönnum Íslands. Auðvitað komu mjög margar konur til Íslands þegar landið var að byggjast upp en Unnur var sú eina sem stýrði skipi og stjórnaði ferðinni. Hún lét smíða handa sér knörr í Skotlandi og fyllti hann af fé og fólki. Hún sigldi til Orkneyja, Færeyja og Íslands og á öllum þessum stöðum skildi hún eftir sig afkomendur. Viðurnefni hennar, djúpúðga, merkir hin vitra.