Hjarðarholt

Ólafur pá átti Hjarðarholt og þar fæddist Kjartan Ólafsson. Þar ólust þeir frændur Kjartan og Bolli upp saman. Áður en Ólafur keypti Hjarðarholt bjó þar maður sem kallaður var Víga-Hrappur en þá kallaðist bærinn Hrappsstaðir. Víga-Hrappur var mikið illmenni og ekki síður eftir dauðann því hann gekk aftur og réðst á fólk og búfé. Ólafur kunni hins vegar ráð við draugnum, lét opna hauginn hans og brenna lík hans og dreifði öskunni út á haf. Eftir það sást draugurinn ekki aftur. Núna er falleg kirkja í Hjarðarholti en hún var vígð árið 1904.