Sögutími

Auðvelt er að tímasetja Laxdælu því ýmsir frægir atburðir tengjast sögunni sem og konungar sem vitað er hvenær ríktu. Sagan gerist þó á löngum tíma. Hún hefst í kringum landnám Íslands á seinni hluta 9. aldar – það vitum við vegna þess að faðir Unnar djúpúðgu og bræður flýja undan Haraldi konungi hárfagra. Unnur djúpúðga verður síðan ein af fyrstu landnámsmönnunum á Íslandi. Næsta mikilvæga tímasetning er kristnitakan á Íslandi árið 1000. Tvær af aðalpersónum Laxdælu, Kjartan og Bolli, flækjast inn í kristnitökuna. Sögunni lýkur um miðja 11. öld þegar Guðrún Ósvífursdóttir er orðin gömul kona.