Blót

Þegar víkingarnir þurftu á aðstoð goðanna (ásanna) að halda héldu þeir blót eða blótveislur. Markmiðið með því að blóta goðin var að efla þau og fá hjá þeim hjálp. Hver goði gerði hof hjá bæ sínum og þar fór blótið fram. Goðinn stýrði athöfninni, hann sat í öndvegi eða hásæti en báðum megin við það voru skrautlegar, úskornar stoðir sem kölluðust öndvegissúlur. Blótið fólst í því að færa goðunum fórnir, mat og drykk, og fórnardýr ef mikið lá við.  Þá var dýri slátrað, oftast hesti eða nauti,  og blóðinu úr því safnað í bolla sem kallaðist hlautbolli. Goðinn smurði síðan eða skvetti blóðinu úr bollanum um hofið og á gesti blótsins. Goðin höfðu mjög sérhæfð hlutverk og því voru mismunandi goð blótuð eftir því hvaða aðstoð fólk þurfti. Ef víkingar vildu sigra í orrustu blótuðu þeir Óðin því að hann var guð hernaðar. Ef þeir vildu hamingjusamt hjónaband og fjölda barna blótuðu þeir Freyju. Stundum voru blótin miklar hátíðir eins og jólablótin sem haldin voru um miðjan vetur þegar sól tók að hækka á lofti að nýju. Núna eru jól kristinna manna á sama tíma.