Heim 5 Víkingaöld 5 Heimildir um víkinga 5 Snorri Sturluson

Snorri Sturluson


Snorri Sturluson (1179-1241) er frægasti rithöfundur miðalda. Hann skrifaði um trú víkinganna sem kallast ásatrú. Sú bók heitir Snorra-Edda. Hann skrifaði líka sögu Noregskonunga þar sem margir víkingakonungar koma við sögu. Sú bók heitir Heimskringla. Bækur Snorra gefa mikilvægar upplýsingar um víkinga en það má samt ekki gleyma því að þær eru skrifaðar 200 árum eftir að samfélag víkinga leið undir lok. Heimskringla er til dæmis bæði ævintýraleg og raunsæ. Sumir elstu víkingakonungarnir eru hálfgerðar ævintýrapersónur en frásögnin verður raunsærri og trúverðugri eftir því sem hún nálgast samtíma Snorra.

Snorri var vel menntaður, kristinn rithöfundur en samt fannst honum rétt að bjarga gömlu ásatrúnni frá því að falla í gleymsku. Hann vildi að fólk þekkti trú forfeðranna, til dæmis svo að það gæti skilið gamlan skáldskap. Ef til vill fannst honum ásatrúin samt svolítið hlægileg, að minnsta kosti eru margar mjög fyndnar sögur af gömlu guðunum í Snorra-Eddu. Snorra fannst heimsmynd víkinganna líka mjög gamaldags. Hann sagði að þeir hefðu trúað því að jörðin liti út eins og kringla. Á kringlunni byggju bæði menn og guðir.

Snorri bjó lengi í Reykholti í Borgarfirði þar sem hann var með heita laug við húsið sitt. Laugin er enn til og kallast auðvitað Snorralaug. Í Reykholti er auk þessa safn um Snorra núna. Myndin af honum hér á síðunni er eftir norska listamanninn Christian Krohg og birtist fyrst  í Heimskringlu sem kom út 1899.