Goðarnir settu lögin en þeir höfðu ekki tíma til að kveða líka upp dóma. Þeir ákváðu þó hvaða bændur ættu að sitja í dómstólunum sem störfuðu á Alþingi. Dómar yfir sekum manni gátu verið þrenns konar. Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn frjáls aftur. Þetta var vægasta refsingin. Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú ár voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. Ef hann fannst á Íslandi á þessu þriggja ára tímabili mátti drepa hann. En að þremur árum liðnum gat hann komið heim og verið frjáls. Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógarmaður eða skóggangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Það var ekki fyrr en mörgum öldum seinna sem farið var að dæma menn í fangelsi fyrir lögbrot.