Heim 5 Víkingaöld 5 Daglegt líf 5 Börn á víkingaöld

Börn á víkingaöld

Víkingaöldin var eins og nútíminn að því leyti að fólk reyndi að koma sér saman um hvenær krakkar gátu talist fullorðnir. Gömul lög sýna að víkingarnir miðuðu við 16 ára aldur, sem sagt tveimur árum fyrr en núna. Það var þó algengt að börn þyrftu að hegða sér eins og fullorðnir miklu fyrr. Börn gátu talist fullorðin 12 ára gömul, til dæmis hvíldi hefndarskyldan á strákum sem voru stórir og sterkir þótt þeir væru bara 12 ára. Ef faðir þeirra var drepinn þá urðu þeir að hefna hans. Stelpur á þessum aldri máttu ekki bera vopn en þær þurftu hins vegar að giftast. Algengur giftingaraldur stúlkna var 14-15 ára. Þær réðu því ekki sjálfar hverjum þær giftust heldur feður þeirra eða jafnvel bræður. Besta dæmið er í Laxdælu þar sem Guðrún Ósvífursdóttir er 15 ára þegar hún giftist í fyrsta sinn og 17 ára þegar hún giftist í annað sinn. Síðar hvetur Guðrún syni sína til að hefna föður síns þótt þeir séu aðeins 12 og 16 ára gamlir.

Fóstur

Á víkingaöld og fram eftir miðöldum sýndu menn öðrum mönnum virðingu með því að bjóðast til að fóstra börn þeirra. Það merkir að þeir buðust til að ala upp börn þeirra. Barn sem var tekið í fóstur ólst þá upp fjarri foreldrum sínum en sá sem tók það í fóstur lofaði að annast það eins og sín eigin börn. Bolli Þorleiksson í Laxdælu var aðeins þriggja ára þegar hann var tekinn í fóstur og þurfti að yfirgefa foreldra sína.

 

Leikföng barna

Öll börn leika sér, hvort sem þau eiga mikið af dóti eða ekki. Við getum því verið viss um að börn á víkingaöld höfðu jafn gaman af leik og nútímabörn þótt leikföngin þeirra hafi verið svolítið öðruvísi en nú þekkjast. Fundist hafa leikföng úr tré, steinum og beini frá víkingaöld, til dæmis útskorin dýr. Leikir barnanna tóku mið af því sem þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór. Valmöguleikarnir voru ekki margir, strákarnir vissu að þeir yrðu bændur og gætu farið í víking. Stelpurnar vissu að þær yrðu húsfreyjur. Strákarnir léku sér því mest með trésverð og tréskildi, skylmdust og slógust og þóttust vera í herleiðangri. Stelpurnar léku sér með saumaðar brúður eða trébrúður og bökuðu drullukökur. Allir krakkar léku sér með hluti úr náttúrunni, til dæmis steina, bein og kuðunga. Í Eglu fær Egill Skalla-Grímsson kuðunga og fjaðrir að gjöf frá afa sínum þegar hann er þriggja ára gamall. Þetta eru leikföngin hans.

Hvað lærðu börn?

Víkingabörn gengu ekki í skóla og þau lærðu ekki að lesa, það voru hvorki til skólar né bækur á þessum tíma. Hins vegar lærðu börnin snemma það sem kæmi sér vel þegar þau yrðu fullorðin. Strákarnir lærðu að beita vopnum, veiða dýr og sigla skipum. Sumir lærðu líka að yrkja vísur eða rista rúnir. Stelpurnar lærðu að elda mat, hugsa um börn, sauma föt og spinna úr ull. Flestir krakkar heyrðu sögur sem þeir lögðu á minnið, sögur um æsina, tröllasögur og draugasögur. Á Íslandi heyrðu börnin sögur frá gamla landinu, Noregi og þannig varðveittust minningar um forfeðurna og forna siði. Margar keltneskar ambáttir (frá Írlandi og Bretlandseyjum) voru látnar gæta barna og þá lærðu börnin keltneskar sögur og ævintýri. Víkingabörnin lærðu auk þess að hjálpa til við bústörfin; að hugsa um skepnurnar og rækta jörðina. Þau lærðu líka á umhverfið og náttúruna. Þau þurftu til dæmis að þekkja hvaða jurtir voru ætar, hvernig búast mætti við óveðri og hvaða dýr þyrfti að varast.


Í Egla elta tveir tíu ára drengir feður sína og til bardaga. Drengirnir stinga af og berjast sjálfir með þeim afleiðingum að þeir deyja báðir.

Af Eglu og fleiri sögum má sjá að víkingabörnin fylgdu foreldrum sínum til verka og lærðu af þeim, um leið og þau voru orðin um það bil sjö ára. Strákarnir fylgdu föður sínum á akurinn, að hugsa um skepnurnar – eða í bardaga. Stelpurnar voru inni með móður sinni og lærðu að búa til mat og föt hugsa um börn og taka á móti gestum.