Gjafir

Gjafir koma víða við sögu í Íslendingasögunum og eru þar tákn um vináttu og virðingu. Ríkir og voldugir höfðingjar sýndu vald sitt með því að gefa dýrar gjafir. Þess vegna gefa konungar alltaf dýrmætustu gjafirnar. Þeir gefa vinum sínum vopn, klæðnað, skartgripi og jafnvel herskip með hermönnum, vopnum og vistum. Ólafur pá fær til dæmis herskip að gjöf frá Noregskonungi í Laxdælu. Kjartan sonur hans fær síðar skikkju og sverð frá Ólafi konungi Tryggvasyni. Egill Skalla-Grímsson fær silfurarmband að gjöf frá Aðalsteini Englakonungi í Eglu, eftir að Þórólfur bróðir hans deyr í bardaga. Miklu skipti að taka vel á móti gjöfum og gefa sjálfur gjafir síðar. Það þótti argasti dónaskapur að afþakka gjafir og merki um að menn höfnuðu vináttu gefandans. Það sést vel í Laxdælu þar sem Kjartan afþakkar hross frá Bolla.