Heim 5 Víkingaöld 5 Daglegt líf 5 Hús víkinga

Hús víkinga

Húsin á Íslandi voru eins og annars staðar á Norðurlöndunum því víkingarnir fluttu með sér bæði timbur og þekkingu á smíðum þegar þeir settust hér að. Húsin voru hlaðin úr torfi og grjóti en timbur var notað í burðargrindina. Ríka fólkið klæddi veggina með timbri að innan. Margir hengdu líka útsaumuð teppi eða tjöld fyrir veggina til að skreyta húsin og halda þeim heitum.

Aðalhúsið kallaðist skáli eða langhús. Skálarnir voru stórir og þar svaf fólk, eldaði mat og geymdi eigur sínar. Meðfram veggjunum voru upphækkaðir stallar sem kallaðir voru set. Þar sat fólk þegar það vann ýmiss konar handverk en þar var líka sofið. Út frá langhúsinu voru minni byggingar eins og búr og náðhús (kamar). Á miðju gólfi í skálanum var kveiktur langeldur til að hita húsið og þar var maturinn líka eldaður. Það var því mikilvægt að hafa góðan reykháf upp úr þakinu. Langeldurinn gaf auk þess mikilvæga birtu en í öllum húsum voru líka lampar og jafnvel kerti úr tólg (fitu). Lamparnir voru úr málmi og í þeim var kveikur sem gerður var úr blómi sem heitir fífa. Kveikurinn var látinn liggja ofan í lýsi því það er eldfimt, enda höfðu víkingarnir auðvitað hvorki rafmagn né olíu. Ekki voru margir gluggar á húsunum og í þeim var ekki gler heldur þunnt skinn eða húð. Það hefur því án efa verið bæði sterk lykt og skrýtin birta í víkingahúsunum ef við miðum við húsin okkar.