Heim 5 Víkingaöld 5 Daglegt líf 5 Íþróttir

Íþróttir

Víkingarnir gerðu margt sér til skemmtunar. Íþróttir þeirra snerust mikið um líkamlega krafta enda þurftu víkingarnir að vera í góðu formi, hvort sem var til að sigla skipum, stunda bústörf eða fara í hernað. Víkingarnir stunduðu skíðahlaup, glímu, sund, knattleik, hestaat, skylmingar, spjótkast og skinndrátt sem var eins og reiptog nema togast var á um skinn. Stundum var notað blautt skinn og þá kallaðist leikurinn hráskinnaleikur. Víkingarnir töldu viðfangsefni sem reyndu á andlegan styrk líka til íþrótta, til dæmis hnefatafl, skák, kveðskap og rúnir.  Ýmsar íþróttagreinar sem hljóma eins og núna voru í raun allt öðru vísi. Til dæmis snerist keppni í sundi um kaffæringar. Markmiðið var að halda andstæðingnum eins lengi og maður gat í kafi (og helst án þess að hann drukknaði). Svona sundkeppni kemur fyrir í Laxdædu þar sem Kjartan Ólafsson keppir við Ólaf konung Tryggvason.

[p1]Laxdæla bls. 30

 

Knattleikur

Knattleikur fór fram á grasi eða ís og var vinsæll bæði hjá börnum og fullorðnum. Stundum stóð keppni í knattleik í marga daga og dró að sér fjölda manns, jafnt keppendur sem áhorfendur. Leikreglurnar eru ekki fyllilega þekktar en þó nægilega vel til að hægt sé að hugsa sér leikinn eins og sambland af hafnarbolta og hokkí. Skipt var í lið og notuð knatttré (trékylfur) og bolti. Boltann mátti taka með höndum og kasta eða slá með knatttrénu. Yfirleitt kepptu tveir í einu, einn úr hvoru liði, og var þá stillt saman keppendum sem voru álíka stórir og þungir.