Veislur

Vinátta og gestrisni voru mikilvæg hugtök á víkingaöld. Menn vildu eiga marga vini, gefa þeim gjafir og bjóða þeim í veislur. Þess vegna eru ótal veislur í Íslendingasögunum. Í veislunum var boðið upp á öl að drekka og kjöt að borða. Stundum var drukkið þunnt skyr í stað öls en víkingunum þótti það móðgandi eins og sést í Eglu. Oft voru skemmtiatriði, sagðar sögur eða kveðin kvæði. Stærstu veislurnar voru haldnar þegar brúðkaup voru eða um jól sem voru líka hátíð í heiðnum sið. Þá fögnuðu menn rísandi sól og aukinni birtu. Það gefur þó augaleið að einungis ríkir höfðingjar gátu haldið veglegustu veislurnar. Í þær mættu yfir hundrað manns og hver gestur hafði með sér tvo hesta. Veislurnar voru ekki bara fjölmennar heldur stóðu þær líka lengi, jafnvel marga daga. Allan tímann þurftu gestirnir að fá mat og drykk og svefnpláss, auk þess sem hestarnir þurftu bæði pláss og gras að bíta. Þar að auki voru karlmennirnir vopnaðir svo það þurfti líka að koma fyrir hrúgu af vopnum og öðrum farangri.