Víkingarnir bjuggu fyrst bara á Norðurlöndunum en svo fóru þeir að sigla lengra og lengra og setjast víðar að. Víkingarnir voru færustu siglingamenn Evrópu. Þeir voru flinkir að smíða skip og kunnu að rata um höfin. Það gerðu þeir með því að fylgjast með stjörnunum á himninum, til dæmis pólstjörnunni sem er alltaf í hánorðri. Þeir fylgdust líka með dýrunum. Flug fugla benti til þess að land væri í nánd og þeir vissu hvaða hvalategundir héldu sig nærri landi. Þeir virtu líka fyrir sér skýin því þeir vissu hvers konar skýjabólstrar myndast við fjallstinda. En það sem mestu máli skipti er að víkingarnir hönnuðu skip sem þoldu langa siglingu.
Siglingaleiðirnar
Víkingar sigldu víða og námu lönd. Þeir fundu til dæmis Ísland og settust hér að um 870. Þeir sigldu til Skotlands, Englands og Írlands og byggðu upp bæi sem enn standa, svo sem Dyflinni (Dublin) á Írlandi og Jórvík (York) á Englandi þar sem nú er merkilegt safn um víkingatímann. Þeir sigldu eftir stóru ánum í Evrópu, til Garðaríkis sem nú heitir Rússland, til Parísar og alla leið til Asíu. Sumir þeirra sigldu til Miklagarðs og gerðust varðmenn keisarans þar. Þá kölluðust þeir Væringjar. Mikligarður heitir núna Istanbúl og er í Tyrklandi. Víkingar ferðuðust líka til Jórsala sem við þekkjum sem Jerúsalem.
Árið 985 settist víkingurinn Eiríkur rauði að á Grænlandi og upp frá því fóru norrænir menn að setjast þar að. Árið 1000 sigldi sonur hans, Leifur heppni, enn þá lengra í vestur og fann land sem hann kallaði Vínland. Það var Ameríka.