Heim 5 Víkingaöld 5 Víkingaskip 5 Íslendingur

Íslendingur

Víkingaskipið Íslendingur er nákvæm eftirmynd Gaukstaðaskipsins. Það er 23 metrar á lengd og 5,3 metrar á breidd. Kjölurinn (neðsti hlutinn) er hins vegar 18 metrar á lengd. Á siglingu ristir skipið 1,7 metra sem þýðir að það nær 1,7 metra niður í sjóinn. Það er stýrið sem nær lengst niður, 70 sm niður fyrir kjöl. Siglutréð er 15 metra hátt og fest í stórt eikarstykki í miðju skipinu sem nefnist ”kelling”. Ráin sem heldur uppi seglinu er um 9 metrar að lengd. Seglið er ferhyrnt og úr bómull, 120 fermetrar að stærð, en áður fyrr voru seglin úr vaðmáli.  Skipið er byggt úr eik og furu og vegur um það bil 14 tonn en þegar það er tilbúið til siglingar yfir hafið vegur það 25 tonn. Mestu munar þar um 8 tonn af fjörugrjótisem sett eru í botninn til að skipið haldist stöðugt. Þessi aukaþyngd kallast kjölfesta en án hennar myndi skipið velta á hliðina.

Maðurinn sem smíðaði skipið heitir Gunnar Marel Eggertsson og er skipasmíðameistari. Hann þurfti að nota 18 tonn af timbri og 5.000 nagla við verkið. Gunnar Marel sigldi Íslendingi til Ameríku árið 2000 og komst að því að þessi gerð af víkingaskipum er mjög hraðskreið,  stöðug og örugg á sjó. Myndin hér á síðunni var tekin þegar Íslendingur kom til New York í Bandaríkjunum eftir fjögurra mánaða siglingu.