Á víkingaöld áttu flestir bændur vopn. Algengustu vopnin voru sverð, spjót og öxi en sumir áttu sjaldgæfari vopn eins og boga og örvar eða atgeir sem var sambland af spjóti og öxi. Í Íslendingasögunum er stundum talað um höggvopn og lagvopn. Höggvopn er vopn sem hægt er að höggva með, eins og öxi eða sverð. Lagvopn er vopn sem má stinga með, til dæmis spjót og hnífur.
Víkingarnir notuðu aðallega skildi og hjálma til að verja sig í bardögum. Hjálmar víkinganna voru úr málmi eða jafnvel leðri en skildirnir úr tré. Sumir áttu níðþunga brynju úr járni en þegar líða fór á víkingaöldina urðu hringabrynjur algengari. Þær voru gerðar úr litlum járnhringjum og því mun léttari en heilu járnbrynjurnar.
Vopnin vildu víkingarnir hafa skreytt, til dæmis þótti þeim mjög flott að mála myndir á skildina sína. Oftast voru það dýramyndir en dýrin áttu þá að tákna ákveðna eiginleika sem bardagamaðurinn vildi búa yfir. Sumir víkingar voru kristnir og máluðu kross á skjöldinn sinn í staðinn fyrir dýr. Víkingarnir skreyttu ekki hjálmana sína með hornum eins og stundum er haldið fram. Það hefði verið stórhættulegt að hafa horn á hjálmunum því óvinirnir hefðu þá auðveldlega getað krækt í þá í bardaga.
Menn gátu unnið járn úr jörðu á Íslandi, úr svokölluðum mýrarrauða, en það var ekki sérlega gott. Beittustu vopnin í Íslendingasögunum eru því útlensk. Þeir sem hafa verið í víking eiga vopn sem þeir rændu eða hirtu af mönnum sem þeir drápu. Allrabestu vopnin eru gjöf frá konungum. Slíkum vopnum fylgir sérstök gæfa.
Margir víkingar gáfu vopnunum sínum kröftug nöfn. Í Njálu er öxi sem kallast Rimmugýgur en það merkir bardagatröll. Sverðið Fótbítur kemur við sögu í Laxdælu og Grásíða í Gísla sögu. Í Íslendingasögunum eru nokkur sverð sem heita konungsnautur en það merkir gjöf frá konungi (nautur merkir gjöf).